Hátíðaræða 17. júní 2012 í Lágafellskirkju

Kæru kirkjugestir gLágafellskirkjaleðilegan þjóðhátíðardag.

Eða eins og börnin segja hæ hó og jibbý jei og jibbý jei það er komin 17.  júní.

Ég vona svo innilega að allir hér inni eigi margar góðar minningar frá þjóðhátíðardeginum.  Ég minnist þess sem barn að hafa hlakkað mikið til 17. júní, ekki vegna þess að ég hafði skilning á mikilvægi hans fyrir sögu okkar Íslendinga heldur fyrst og fremst hlakkaði ég til að eiga dag með fjölskyldunni fara í skrúðgöngu og kaupa blöðru og fána.  Ég minnist þess einnig að mamma mín lagði mikið uppúr því að ég væri vel tilhöfð og helst í nýjum fötum. 

Ég er nú ekki ýkja gömul en þó var það svo þá að það að fá ný föt gerðist ekki á hverjum degi en gjarnan var þjóðhátíðardagurinn notaður sem tækifæri til að kaupa falleg sumarföt.  Það var oft til þess að auk en frekar á spennuna að mega fara í nýju fötin í fyrsta skiptið á 17. júní.  Ég minnist þess að mæta uppstrípluð til langömmu og langafa sem bjuggu í Stórholtinu þaðan var gengið niður að Hlemm til að taka þátt í skrúðgöngu og hátíðarhöldum dagsins.  Aðalatriðið er það að ég á ljúfar og góðar æskuminningar frá þessum degi, minningar um samveru með fjölskyldu og vinum.

Þjóðhátíðardagurinn er kjörinn dagur til að skapa minningar  um góðan dag í góðra vina hópi.  Þegar öllu er á botninn hvoft eru það minningarnar um góðar stundir sem skipta öllu máli, samvera með fjölskyldu og vinum er svo miklu miklu  dýrmætara en nokkur veraldleg gæði.

Á sama tíma og við gleðjumst með börnum okkar og fögnum þessum mikilvæga degi, kannski með því að kaupa rándýrar gasblöðrur sem enda oft hátt uppi á himni og risastóra sleikjóa sem gera það að verkum að nýju 17.  júní fötin eru orðin klístruð strax í skrúðgöngunni.  Þá er ekki úr vegi að fræða þau um mikilvægi þjóðhátíðardagsins  17.  júní því jú bæði lýðveldið Ísland og Jón Sigurðsson eiga einmitt afmæli í dag.

Jón Sigurðsson  sem fékk grafskriftina að vera sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Maðurinn sem var í forsvari fyrir baráttu Íslands fyrir sjálfstæði frá konungsveldi Danmerkur, maðurinn sem notaði hvorki byssur né sverð heldur smíðaði hann vopn sín úr skjalasöfnum.  Það voru nefnilega söguleg og siðferðileg rök sem voru notuð sem vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði.  Það þurfti engar byssukúlur og enginn þurfti að láta lífið fyrir þessa baráttu. 

Yngri kynslóðum þessa lands er oft legið á hálsi fyrir að hafa takmarkaða þekkingu á sögu þjóðarinnar, ég tilheyri án efa þeirri kynslóð sem þyrfti að vita svo miklu meira um þá merkilegu baráttu sem  háð var fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.

Sjálfstæðinu sem okkur þykir svo sjálfsagt í dag. 

Ég naut þess fyrir 2 árum síðan að fara í ferðalag um hina fögru Vestfirði og heimsótti meðal annars Hrafnseyri við Arnarfjörð fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, þar sem nú er safn sem er til þess fallið að fræða okkur um hans merku ævi.  Ég hafði mjög gaman að því að fræðast um þennan merka mann og uppfræða börnin mín um þessa merku sögu, með misjafnlega góðum árangri. 

Það var svo stuttu síðar í einhverju fjölskyldu boðinu að unglings stúlka í fjölskyldunni sagði mér að hún hefði sko fengið 10 í prófinu um Jón Sigurðsson.  Ég hrósaði henni að sjálfsögðu fyrir það og hún gat sko talið upp að kauði væri fæddur þann 17. júní árið 1811, að Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Hann væri oft nefndur Jón forseti og væri karlinn á 500 kr. seðlinum.  Kona hans hét Ingibjörg og hann bjó lengst af í Danmörku.  Einnig sagði hún mér það sem ég þá ekki vissi að Háskóli Íslands hefði verið stofnaður á afmælis degi hans, eitthvað fleira gat hún líka talið upp um þennan merka mann Jón Sigurðsson.  En þegar ég spurði hana hvað væri svona merkilegt við þennan Jón Sigurðsson varð fátt um svör. 

Þetta sýnir okkur að það að láta börnin okkar lesa kennslubækur sem eru fullar af upplýsingum um þennan merka mann er ekki það sama og að skilja mikilvægi þeirrar baráttu sem þar er um fjallað.

Það er því ekki úr vegi að gera meira en að kaupa blöðrur og fána í dag, við foreldrar þyrftum einnig að minna á að í dag er afmæli lýðveldisins á sama hátt og við minnumst þess í desember að jólin snúast ekki bara um fjölskyldu boð og gjafir heldur erum við að fagna afmæli Jesús Krists.

En maður er manns gaman og hátíðarstundir eru til að njóta þeirra.

Ég vona að þið öll munuð njóta þjóðhátíðardagsins í okkar fallega sveitarfélagi.

Hverjum þykkir sinn fugl fagur segir máltakið en það er svo sannarlega engum blöðum um það að flétta að bærinn okkar er besta allra sveita.  Á þessu ári fagnar bærinn okkar 25 ára afmæli en þann 9. ágúst árið 1987 varð Mosfellshreppur sem oftast var kölluð Mosfellssveit að Mosfellsbæ. 

Ég minnist þess að vera ný flutt í þennan fallega bæ þegar þessum tímamótum var fagnað á Hlégarðstúninu.  Hreppurinn var orðin fullvaxta og komin með titilinn bær.  Ég var og er stoltur Mosfellingur en á æskuárunum fannst mér mikilvægt að hann væri kallaður þessu virðulega nafni Mosfellsbær, ættingjar sem bjuggu í höfuðborginni gerðu gjarnan grín að þessu og sögðu að þetta væri nú óttaleg sveit.  Ég varð sár og leiðrétti fólk iðulega ef það talaði óvart um bæinn minn sem Mosfellssveit.

 Nú á seinni árum finnst mér fátt jafn rómantískt og að hugsa til Mosfellssveitar og það að okkur skuli hafa tekist að skapa hér skemmtilegt og gott bæjarsamfélag í svona líka fallegri sveit.  Sveitarómantíkin sem hér blasir við okkur fellin okkar fögru, árnar og dalirnir, Leirvogurinn, hestar á beit,  í bland við svona ágætis kaupfélagsstemmingu.

Í ágúst árið 1972 birtist í Morgunblaðinu viðtal við  Hrólf Ingólfsson þáverandi sveitarstjóra og Jón Guðmundsson þáverandi oddvita Mosfellshrepps undir  fyrirsögninni  „Staldrað við í Mosfellshreppi – þar sem sveitin er að verða að bæ“.  Í viðtalinu er farið yfir þá miklu uppbyggingu sem á sér stað í Mosfellshreppi sem þá var 1000 manna byggð.  Í dag búa í Mosfellsbæ hátt í 10.000 manns þannig að breytingin hlýtur að vera mikil frá því sem varið árið 1972.   Umrætt viðtali lýkur á þessum orðum,  með undirfyrirsögninni ; Úr sveit í bæ „þannig er í stuttu máli Mosfellshreppurinn í dag um 90 árum eftir Innansveitarkróniku,  Augljóst er þó að sveitabæirnir svokölluðu eru á undanhaldi og að flestra dómi er nú aðeins tímaspursmál hvenær Mosfellssveitin hættir að vera sveit og verður að bæ.   En það gerðist formlega 15 árum eftir að þetta er ritað eða árið 1987.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég sé ein um að þykja svona gífurlega vænt um bæinn minn, þegar ég nýt þess að fara í útreiðatúr meðfram Leirvoginum eða skokka um Reykjalundarskóg nú eða ganga upp á Úlfarsfellið og horfa yfir bæinn sækir að mér sérstök tilfinning, tilfinning sem ég get ekki alveg útskýrt en er einhver samblanda af væntumþykju, hamingju og stolti. 

Á vordögum sannfærðist ég  um að ég er alls ekki ein um þessa tilfinningu.

Á opnu fundi í Listasalnum okkar var ungt fólk í bænum að fjalla um bæinn  og segja frá því hvernig var að alast hér upp. Það var auðheyrt á þeim öllum að þeim þótti mjög vænt um bæinn sinn.  Þau sögðu að hér hefði verið mjög gott að alast upp, skólar og önnur félagsstarfssemi til mikillar fyrirmyndar, þau nutu náttúrunnar og þeirra frábæru kosta sem Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.  Ef eitthvað var neikvætt í þeirra augum snéri það að almenningssamgöngum þar sem það væri ömurlegt að bjóða stelpu á stefnumót og þurfa að treysta á mömmu eða pabba sem bílstjóra í stað gulu limmosíunnar.

Sem betur ferð horfir þetta nú til betri vegar og unglingar í Mosfellsbæ get í haust farið í bíó og tekið strætó heim að sýningu lokinni.

Eftir stendur að í Mosfellsbæ er gott að búa og gott að ala upp börn.  Samfélagið hér er gott.  Fólk sem hér elst upp vill búa hér áfram og alla hér upp sín börn.  Það er gott að vera hluti af góðu samfélagi, segir ekki líka einhverstaðar að það þurfi heilt samfélag til að ala upp börn

Það er eitthvað notalegt við að þekkja til nágranna og  foreldra  í skólum barnanna heilsa gömlum bekkjarfélögum þegar maður fer með barnið sitt á leikskólann eða skýst inn í búð eftir mjólk. 

Ég lenti á spjalli við konu fyrir nokkrum árum sem var þá tiltölulega ný flutt í Mosfellsbæ, hún sagði við mig þið þessi innfluttu Mosfellingar eruð alltaf að heilsa fólki, ég fer inn í Bónus og hitti engan sem ég þekki en svo sé ég að allir eru að heilsast og spjalla um daginn og veginn við næstu manneskju.  Þetta er kannski ágætis áminning til okkar hinna um að bjóða nú alla velkomna í okkar góða samfélag, og halda í heiðri gildum bæjarins sem eru

Virðing, Jákvæðni, Framsækni og Umhyggja.

Við Mosfellingar erum stoltir af sögu okkar og menning, Nóbelsskáldinu okkar, ullariðnaðinum, náttúrunni og öllu því fallega sem sveitin eða bærinn hefur upp á að bjóða, líkt og við Íslendingar allir erum stolt af okkar fagra landi menningu okkar og sögu.

Ég hef sem móðir óbeit á kandísflosi og risastórum sleikjóum sem mér finnst vera eins og sýkla og óhreininda suga.  En ég ætla að láta það eftir börnunum mínum í dag.  Aðalatriðið snýr samt ekki að blöðrum eða kandísflosi, sól eða rigningu heldur því að skapa góðar minningar,  minningar um samveru og skemmtilega tíma. 

Ég hvet ykkur öll til hins sama njótum þjóðhátíðardagsins, brosum til náungans og gerum daginn í dag að minningu sem við munum orna okkur við síðar.

Að lokum ætla ég að flytja ykkur stutt ljóð eftir Jónas Hallgrímsson sem ber heitið

Íslands minni

Þið þekkið fold með blíðri brá

Og bláum tindi fjalla

Og svanahljómi, silungsá

Og sælu blómi valla

Og bröttum fossi, björtum sjá

Og breiðum jökulskalla –

Drjúpi hana blessun drottins á

Um daga heimsins alla.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bryndís Haraldsdóttir

Höfundur

Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís er 32 ára áhugamanneskja um pólitík
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...vor_i_moso
  • Lágafellskirkja
  • ...smbl_953444
  • ...smbl_953443
  • ..._haraldsmbl

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband