30.3.2009 | 11:59
Stjórnmálaálykturn landsfundar Sjálfstæðisflokksins
Nú eru umbrotatímar á Íslandi og í heiminum öllum. Í umbrotum felast tækifæri til að breyta viðteknum venjum þar sem við á og byggja á því sem gagnlegt er og varanlegt. Öflugt og heilbrigt atvinnulíf er frumforsenda þess að hægt sé að verja heimilin og grunnstoðir velferðar- og menntakerfisins. Ríkisútgjöld verða að dragast saman og nýta þarf fjármuni hins opinbera eins vel og frekast er unnt um leið og standa þarf sérstakan vörð um hag öryrkja, eldri borgara og fjölskyldna. Þessi afstaða hvílir á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar um frelsi, framtak, mannúð og mildi. Hlutverk nýrrar forystu Sjálfstæðisflokksins er að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun sem hefur tvennt að leiðarljósi: Að tryggja atvinnu og verja heimilin í landinu.
Tryggjum atvinnu
Íslendingar mega aldrei sætta sig við að hér ríki atvinnuleysi. Við verðum nú þegar að snúa vörn í sókn. Við skulum tryggja að hér verði til allt að tuttugu þúsund ný störf á kjörtímabilinu auk þess að vernda þau störf sem fyrir eru. Þetta gerum við m.a. með því að:
Ljúka endurskipulagningu fjármálakerfisins innan þriggja mánaða. Eitt stærsta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og fjölskyldna er skilvirkt bankakerfi. Í endurskipulagningunni þarf að tryggja hagkvæma endurfjármögnun bankanna og aðgang að lánsfé fyrir atvinnulíf og heimili. Ljúka þarf samningum við erlenda kröfuhafa hið fyrsta. Útvíkka ber ramma peningastefnunnar til að mynda þannig að hún taki aukið tillit til þróunar helstu hagstærða, ásamt því að áhersla á fjármálastöðugleika verði aukin.
Afnema hið fyrsta höft á gjaldeyrisviðskipti og koma þannig í veg fyrir að íslenskt samfélag færist áratugi aftur í tímann. Haftastefna leiðir til spillingar og sóunar.
Koma í veg fyrir að miðstýring og ríkisvæðing verði að ríkjandi skipan, eins og núverandi vinstristjórn virðist því miður telja eðlilegt. Slík ofstjórn grefur undan athafnafrelsi þjóðarinnar og þar með hagsæld hennar. Koma þarf í veg fyrir að leikreglum og grundvallargildum atvinnulífsins verði kollvarpað. Aukin óvissa í efnahagslífinu mun gera allt endurreisnarstarf erfiðara.
Hafna öllum nýjum sköttum á atvinnulífið og einstaklinga. Núverandi vinstristjórn hefur boðað nýja skatta sem draga þrótt úr fólki og fyrirtækjum. Hærri skattar munu reynast þeim ofviða.
Skapa sátt um nýtingu auðlinda okkar og hefja þegar uppbyggingu orkufrekra atvinnugreina, svo sem gagnavera, álvera og annarra hátæknifyrirtækja. Lögð er áhersla á að ekki verði skilið í sundur á milli verndar og nýtingar náttúruauðlinda landsins.
Ráðast í tímabundnar breytingar á skattkerfinu sem hvetja til nýráðninga og þróunarstarfs sem sérstaklega á að gagnast nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.
Verjum heimilin
Hér á landi er rík hefð fyrir því að fjölskyldur fjárfesti í sínu eigin húsnæði. Grípa verður til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur missi heimili sín vegna tímabundinna fjárhagserfiðleika. Þetta gerum við m.a. með því að:
Íbúðareigendur muni geta lækkað greiðslubyrði sína um allt að helming í þrjú ár og framlengt lánstímann á móti. Markmiðið er að laga greiðslubyrðina að greiðslugetu og auka sveigjanleika í afborgunum. Jafnframt verði hugað að höfuðstólslækkun lána til að mæta þeim forsendubresti sem orðið hefur í hagkerfinu.
Stefnt verði að því að í boði verði óverðtryggð lán og möguleikar á að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð,þegar verðbólga og vextir eru komin í viðunandi horf. Þetta sé gert í því augnamiði að auka valfrelsi og fjölbreytni í lánamálum á húsnæðismarkaði.
Öllum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um há- og millitekjuskatt er hafnað, enda bitnar hann iðulega mest á stórum fjölskyldum með þungar fjárhagslegar skuldbindingar. Ísland skattleggur sig ekki út úr vandanum.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki og verði 5-6% undir lok þessa árs. Íslenskt atvinnulíf og heimili þola ekki hið háa vaxtastig.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðustu áratugi leitt uppbyggingu öflugs velferðarsamfélags. Forsendur þess eru öflugt atvinnulíf og að ríkissjóður sé rekinn með ábyrgum hætti. Ekki verður hjá því komist að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Berlega hefur komið í ljós að núverandi vinstristjórn er ekki fær um að taka þær erfiðu ákvarðanir. Í þeim nauðsynlega niðurskurði sem framundan er mun Sjálfstæðisflokkurinn taka tillit til hagsmuna þeirra sem mest eiga undir högg að sækja svo sem öryrkja, lífeyrisþega og efnaminni fjölskyldna en dregið verður úr millifærslum til þeirra sem geta séð sér og sínum farborða. Grunnþjónusta velferðar- og menntakerfisins má ekki skaðast.
Göngum hreint til verks
Á þessum landsfundi höfum við Sjálfstæðismenn gert upp þá atburðarás sem leiddi til hruns bankakerfisins. Sú hreinskilna og opinskáa umræða birtist meðal annars í ályktun fundarins um endurreisn atvinnulífsins og í ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins við setningu fundar. Jafnframt komst fundurinn að niðurstöðu í viðkvæmum og mikilvægum pólitískum álitamálum.
Sjálfstæðisflokkurinn er þverskurður af þjóðinni, opinn og lýðræðislegur flokkur sem virkjar einstaklingana í landinu og ber virðingu fyrir þeim. Meginmarkmið okkar er að vinna fyrir þjóðina og skapa betra samfélag sem byggist á gagnsæi og trausti, jafnri stöðu kynjanna og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Frelsi og ábyrgð verða alltaf að fylgjast að og á grundvelli þessa ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að:
Læra af reynslunni og byggja meðal annars á því uppgjöri sem hefur farið fram í endurreisnarnefnd sjálfstæðismanna.
Beita sér fyrir því að tryggðir séu nægir fjármunir og heimildir fyrir þá sem annast rannsóknir á orsökum bankahrunsins þannig að öruggt sé að þeir sem hafa brotið lög séu sóttir til saka og látnir taka afleiðingum gjörða sinna. Öðruvísi skapast ekki sátt um framtíðaruppbyggingu efnahags þjóðarinnar.
Setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Verja sjálfstæði þjóðarinnar og tryggja yfirráð yfir auðlindum Íslands. Við teljum að við núverandi aðstæður sé hagsmunum þjóðarinnar best borgið utan Evrópusambandsins. Við viljum að Íslendingar séu virkir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu en þróun slíkrar samvinnu á ekki að vera einkamál stjórnmálaflokkanna. Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna. Niðurstaða úr hugsanlegum viðræðum við Evrópusambandið skal borin undir þjóðina.
Björt framtíð bíður Íslands lánist okkur að halda rétt á málum. Nýta þarf það afl sem býr í fólki og fyrirtækjum og tryggja heimilunum í landinu þannig fjárhagslegt öryggi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið meginstoð íslenskra stjórnmála í 80 ár. Sjálfstæðisstefnan byggist á krafti, frumkvæði og dugnaði fólksins í landinu. Framtak og velferð verða hornsteinar sjálfstæðisstefnunnar hér eftir sem hingað til.
Treysta má því að gengið verður hreint til verks.
Um bloggið
Bryndís Haraldsdóttir
Færsluflokkar
Bloggvinir
- arnljotur
- armannkr
- aslaugfridriks
- astamoller
- gattin
- doggpals
- ekg
- elinora
- erlendurorn
- fridjon
- gylfithor
- halldorjonsson
- helgasigrun
- herdis
- drum
- hvitiriddarinn
- jorunnfrimannsdottir
- ktomm
- kolbrunb
- kristjanvalgeir
- loftslag
- pallvil
- iceland
- ragnheidurrikhardsdottir
- sigurdurkari
- sigurjonth
- stebbifr
- villagunn
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mér lýst ágætlega á þessa úttekt og finnst hún sýna fram á hversu mikill vilji er hjá Sjálfstæðisflokknum til að lagfæra það sem illa hefur farið.
Hilmar Gunnlaugsson, 31.3.2009 kl. 01:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.