Færsluflokkur: Bloggar

Drög að ályktun um vísinda- og nýsköpunarmál

Vísinda- og nýsköpunarnefnd

Drög að ályktun um vísinda- og nýsköpunarmál

Endurreisn efnahags- og atvinnulífs á Íslandi með öflugri nýsköpun í háskólum og atvinnulífi

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur öfluga nýsköpun í háskólum og atvinnulífi eina af megin­forsendum endurreisnar íslensks efnahags- og atvinnulífs. Landsfundur leggur áherslu á arðbæra ný­sköpun í landinu með því að hlúa að undirstöðum hennar, verkþekkingu, rannsóknum og tækni­þróun. Vísinda- og tækniráð er hvatt til að stórauka vægi rannsókna- og tækniþróunar í íslensku atvinnulífi og samræma aðgerðir hins opinbera og einkaaðila í nýsköpun á öllum sviðum þjóðlífsins.

Háskólar í öndvegi

Breyttar aðstæður á vinnumarkaði valda aukinni ásókn í háskólanám innanlands. Íslenskir háskólar verða að geta boðið grunn- og framhaldsnám sem stenst alþjóðlegar gæðakröfur og þurfa í því skyni að halda nánum tengslum við erlenda háskóla með nemenda- og kennaraskiptum. Íslenskir nemar verða áfram að geta stundað nám erlendis til að tryggja fjölbreytta hæfni á vinnumarkaði og í vísind­um. Háskólar þurfa að sinna kennslu og rannsóknum jafnt í grunnvísindum sem hagnýtum fræðum og stuðla að uppbyggingu íslensks atvinnulífs.

Landsfundur telur mikilvægt að

·       Setja háleit alþjóðleg viðmið í öllu skólastarfi á Íslandi.

  • Tryggja að hér á landi starfi háskólar í fremstu röð á alþjóðavettvangi.
  • Efla samstarf háskóla þar sem við á og tryggja jafnframt samkeppni þar sem við á.

·       Auka nýsköpunarstarf í háskólum og efla samvinnu og hugmyndaflæði milli háskóla og atvinnulífs.

·       Leggja sérstaka áherslu á verkmennt, tækni- og raungreinar á öllum skólastigum og fjölga nemendum í þessum greinum.

·       Styðja við hagnýtar háskólarannsóknir og kennslu í nýsköpunarfræðum og koma niðurstöðum þekkingarsköpunar hratt og örugglega til þjóðfélagsins.

·       Hlúa að velferð þjóðarinnar með öflugum rannsóknum í þágu íslenskrar menningar og þjóðlífs, heilbrigðis og umhverfis.

·       Beina rannsóknastarfsemi ríkisins í háskólaumhverfi með flutningi opinberra rannsóknastofnana í vísindagarða og útboði verkefna til háskóla og fyrirtækja í slíku umhverfi.

  • Auðvelda erlendum vísindamönnum að hefja störf hér á landi með skilvirkari afgreiðslu vegabréfsáritunar.

Nýsköpun og starfsumhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja

Arðbær nýsköpun frumkvöðla og fyrirtækja er sá grundvöllur hagvaxtar sem Íslendingar geta lagt traust sitt á til næstu áratuga. Í ljósi aðsteðjandi efnahagsþrenginga og aðhalds í ríkisútgjöldum þarf ein af megináherslum stjórnvalda að vera bætt starfsumhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja sem stunda nýsköpun á Íslandi. Rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi þarf að vera hvetjandi fyrir alla sem vilja byggja upp fyrirtæki og skapa störf.

Landsfundur telur mikilvægt að

·       Auka fjárfestingar innlendra og erlendra einkaaðila í rannsóknum og nýsköpun á Íslandi.

·       Hvetja einstaklinga og fyrirtæki til nýsköpunar og tækniþróunar með einfaldri lagaumgjörð.

·       Styðja við frumkvæði einstaklinga til uppbyggingar sprotafyrirtækja með reynslu annarra þjóða að leiðarljósi.

·       Beita opinberum útboðum og innkaupum til að efla nýsköpun og tækniþróun í íslensku atvinnulífi.

·       Leggja áherslu á aðgerðir sem fjölga nýjum fyrirtækjum og efla þannig heilbrigða innbyrðis samkeppni og auka verðmætasköpun.

Stoðkerfi rannsókna og nýsköpunar

Hlutfall íslenskra samkeppnissjóða sem styrkja rannsóknir og nýsköpun af heildarframlögum hins opinbera til rannsókna er lágt. Enn er stór hluti opinberra framlaga bundinn í ríkisreknum rann­sókna­stofn­unum. Þá eru öflugir rannsókna- og nýsköpunarsjóðir enn undir stjórn einstakra atvinnu­vega­ráðu­neyta. Þessu þarf að breyta til að skapa sóknarfæri til öflugs samkeppnissjóðs á sviði nýsköpunar sem beini sjónum sínum sérstaklega að sprotafyrirtækjum. Þá er mikilvægt að auðvelda þátttöku íslenskra fyrirtækja og frumkvöðla í áætlun Evrópusambandsins um nýsköpun.

Landsfundur telur mikilvægt að

·       Skerpa áherslur opinberra samkeppnissjóða sem styðja rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun og auka þannig skilvirkni þeirra.

·       Auka hlutfall opinberra samkeppnissjóða sem styðja rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun þannig að það verði a.m.k. fjórðungur af heildarfjárveitingu hins opinbera til málaflokksins.

·       Skapa stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja sem byggi á samkeppni fyrirtækjanna sjálfra í gegnum öflugan samkeppnissjóð þar sem einkaaðilar fjárfesta í nýsköpun á móti hinu opinbera, meðal annars með „krónu fyrir krónu" fyrirkomulagi.

  • Fela einkaaðilum í auknum mæli að sinna stuðningi við nýsköpun og sjá um opinber fjárútlát til sprotafyrirtækja, sem fari fram með samkeppni- eða útboðsfyrirkomulagi.

·       Fela Vísinda- og tækniráði umsjón opinberra samkeppnissjóða sem styrkja rannsóknir og nýsköpun og tryggja að pólitísk afskipti einstakra ráðuneyta ráði ekki úthlutunum sjóðanna í stað sam­keppnis­­forsendna.

·       Stytta boðleiðir í málefnum nýsköpunar með sameiningu atvinnuvegaráðuneyta.

  • Auðvelda þátttöku íslenskra frumkvöðla í samkeppni- og nýsköpunaráætlun ESB.

Ég gef kost á mér í það sæti

Ármann Kr. Ólafsson hefur unnið að mörgum góðum mál á þeim stutta tíma sem hann sat á þingi. Það er því missir fyrir Sjálfstæðisflokkin í SV-kjördæmi að hann skuli ekki gefa kost á sér núna. Ég virði ákörðun Ármanns og veit að kraftar hans munu nýtast á mörgum stöðum og ég efast ekki um að hann muni halda áfram að vinna ötullega fyrir Sálfstæðisflokkinn.

Sjálf hafnaði ég í áttunda sæti í prófkjörinu og óska ég því eftir að vera færð upp í það sjöunda. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að lenda ofar í prófkjörinu enda tel ég mig hafa ýmislegt fram að færa fyrir flokkinn á þessum erfiðu tímum. Ég tel að þau sjónarmið sem ég talaði fyrir í prófkjörsbaráttunni um aukna fjölbreytni í íslensku atvinnulífi með áherslu á nýsköpun eigi vel við í þessu árferði.

Það er einfaldlega nauðsynlegt við núverandi aðstæður að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur það verður aðeins gert með hröðum og markvissum aðgerðum.

Til lengri tíma litið verðum við að huga að auknum fjölbreytileika í atvinnulífinu, lausnin felst ekki í enn einu álverinu. Lausnin felst í því að virkja þann mannauð sem býr í landinu til góðra verka. Þar vil ég leggja hönd á plóginn og tel að kraftar mínir geti nýst vel á því sviði.


mbl.is Ármann gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spánarstjórn sendir smokka

Benedikt páfi virðist ekki ættla að breyta neinu í forneskjulegri afstöðu Páfagarðs til nútíma samfélags.  Það sannaðist í heimsókn hans til Afríku þar sem hann lét þau orð falla að smokkar væru ekki lausnin á HIV-smitvanda í álfunni.

Spánarstjórn ákvað að senda eina milljón smokka til dreifingar í Afríkulöndum í kjölfar yfirlýsingar páfa.  Ég skora á ítölsk stjórnvöld að gera það sama.


Ofurhetjan Obama

Barnabækur um forsetann, Ameríka er og verður alltaf rosalega "amerísk". 

Ég er hrifin af Obama og ljóst að þar er flottur leiðtogi á ferð.  Ég er þess fullviss að hann hafi mikil og góð áhrif á heimsvísu. 

En hann er maður og því skulum við fara varlega í ofurhetjudýrkun. 

Sjáið þið fyrir ykkur barnabók um forsetann okkar, fyndin tilhugsun.  Myndi reyndar kaupa barnabók um fyrsta kvennforsetann.


mbl.is Börn eignast nýja ofurhetju - Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HB Granda klúðrið

Almenn starfsmanna ánægja er mikilvæg öllum stjórnendum og fyrirtækjum.  Ímynd fyrirtækja er einnig mikilvæg og því eru þessir þættir oft notaðir við mat á fyrirtækjum.  Stjórnendur þurfa því ávallt að hafa þessa þætti í huga í sinni ákvarðanatöku.  

En fram hjá því er ekki hægt að horfa að eigið fé er nauðsynlegt öllum fyrirtækjum og því mikilvægt að fjárfestar séu tilbúnir að leggja fjármagn sitt í reksturinn.  Þess vegna eru arðgreiðslur mikilvægar, en þær eiga bara rétt á sér þegar vel gengur.

Ef aðstæður eru þannig að fyrirtæki treystir sér ekki til að standa við kjarasamningsbundna launahækkun við starfsfólk sitt er ekki hægt að rökstyðja það að fyrirtækið eigi að greiða arð.

Í HB Granda málinu verður stjórninni á mistök,  þegar tilkynnt er um arðgreiðslur.  Að sjálfsögðu hefði stjórnin átt að huga að ímynd fyrirtækisins svo og hag starfsmanna þegar þessi ákvörðun var tekin.  Rétt hefði því verið í upphafi að ákveða að starfsmenn fengju hluta af velgengni fyrirtækisins í formi launahækkunnar.


mbl.is HB Grandi hækkar laun starfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör VG í NV kjördæmi

Fréttir þess efnis að frambjóðendur í prófkjöri VG í NV kjördæmi hafi ekki fengið afrit af kjörskrá/félagatali eru ótrúlegar.  Einn frambjóðandinn sitjandi þingmaður hafði þó slíka lista undir höndum þó þeir væru kanski ekki ný uppfærðir.

Ég hef sjálf nýlokið minni prófkjörsbaráttu og veit ekki hvernig ég hefði háð hana hefði ég ekki haft félagatal flokksins míns undir höndum.  Er þó talsvert hátt hlutfall íbúa í mínu kjördæmi (SV) skráð í Sjálfstæðisflokkinn.  En ég ímynda mér að hlutfall flokksbundinna VG í NV kjördæmi sé ekki íkja hátt.  Þar að leiðandi er erfitt að koma boðskapnum til skila til þeirra sem raunverulega kjósa í prófkjörinu.  Reglur sem þessar geta ekki verið til þess fallnar að ýta undir lýðræðislega kosningu í prófkjörum.  Vonlaust er fyrir þá sem eru nýjir og lítið þekktir að ná augum og eyrum kjósenda. 

En hvað er ég að hafa áhyggjur af þessu enda ekki í VG.


Vilja ellefu milljarða úr ríkissjóði

Þetta er fyrirsögn forsíðufréttar Fréttablaðsins í dag.  Í fréttinni er sagt frá því að forsvarsmenn Byrs sparisjóðs munu óska eftir framlagi úr ríkissjóði á næstu dögum.  Ástæðan er tapa síðasta árs upp á 29 milljarða.  Það var slæmt ár hjá Byr eins og svo mörgum öðrum fjármálastofnunum sem nú eru flestar komnar í eigu almennings. 

En ári áður þ.e 2007 var tæplaga 8 milljarða króna hagnaður af rekstrinum og þá ákváðu stofnfjáreigendur að greiða sér út arð upp á 13,5 milljarða.  Reikningsdæmi sem erfitt er að skilja.  En krókaleiðir voru notaðar og kom arðurinn úr svokölluðum varasjóði. 

Varasjóður sem væri 13,5 milljörðum hærri kæmi sér kanski vel núna þegar tap ársins 2008 er að sliga reksturinn. 


Tengsl manna fyrir og eftir bankahrun

Það eru erfiðir tímar í íslensku efnahagslífi.  Hvert fyrirtækið á fætur öðru fer í þrot eða greiðslustöðvun og annatími er hjá lögfræðingum og endurskoðendum við að gera málin upp.

Grundvallar regla við ráðningu aðila sem fara eiga yfir aðdraganda málsins og gera þrotabú upp hlýtur að vera að þeir hafi ekki tengsl við starfsemina sem sigldi í þrot eða fyrrum eigendur.

Gegnsæi, sanngirni og heiðarleiki verður alltaf að vera til staðar.  En krafan um slík vinnubrögð hefur aldrei verið meiri en einmitt nú.  Því verður að vanda sérstaklega vel til þessara verka.  Þó að við Íslendingar séu fámenn þjóð og oft þannig að endalaust er hægt að tengja menn saman, verðum við að vanda okkur meira nú en nokkru sinni áður.

Sögusagnir, fréttaflutnignur og umræður beinast að því að jafnvel hafi verið framin lögbrot innan bankanna og hjá tengdum félögum.  Ef ekki lögbrot þá er ljóst að vinnubrögð oft á tíðum verið siðlaus.

Það hlýtur því að vera ófrávíkanleg krafa að þeir sem að uppgjörunum koma hafi engin hagsmuna tengsl við fyrrverandi starfsemi og eigendur.  Annað elur á sögusögnum um ranglæti, yfirhylmingar og siðleysi.

 

 

 


Þeir treysta ungu fólki hjá Framsókn

Það er allavega hægt að segja það um Framsóknarflokkinn að hann treystir ungu fólki. 
mbl.is Birkir Jón sigurvegari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörið búið

Jæja þá er prófkjörið búið, ég náði ekki þeim árangri sem ég stefndi að.  Mér skilst að ég hafi hafnað í áttunda sæti en hef enn ekki fengið endarlega niðurstöðu.  Baráttan var stutt að þessu sinni.  Ég tók þá ákvörðun að leggja ekki í peningabaráttu, auglýsti ekki og lagði ekki út í mikin kostnað.  Símreikningurinn verður þó í hærri kantinum. 

Ég vil þakka öllum mínum frábæru vinum og vandamönnum sem studdu mig og lögðu sig alla fram.  Mér finnst leiðinlegt að geta ekki skilað þeim betri árangri en svona er þetta bara. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bryndís Haraldsdóttir

Höfundur

Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís er 32 ára áhugamanneskja um pólitík
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...vor_i_moso
  • Lágafellskirkja
  • ...smbl_953444
  • ...smbl_953443
  • ..._haraldsmbl

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 872

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband