Færsluflokkur: Bloggar

Glæsilegt prófkjör sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ

Prófkjör okkar sjálfstæðismanna í gær var glæsilegt 61 % kjörsókn verður að teljast mjög góð í ljósi kjörsóknar í annarstaðar.  Í þessu prófkjöri var ekki barist um oddvitasætið en í slíkum prófkjörum er þátttakan oft meiri.  Mikil ánægja ríkir með sitjandi bæjarstjóra sem sannast best á frábæri kosningu hans í gær 83,5% greiddra atkvæða.

Sjálf stefndi ég á 2. sætið, það tókst ekki að þessu sinni en ég get vel við unað að lenda í því 3.  Ég vil nota tækifærið og þakka þeim breiða hópi sjálfstæðismanna sem studdi mig í prófkjörinu.  

Listinn er flottur góð kynjaskipting enda höfum við sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ aldrei þurft á kynjakvótum að halda til að tryggja framgang kvenna.  Í Mosfellsbæ er hefð fyrir sterkum konum í flokknum og kjósendur eru meðvitaðir um mikilvægi þess að hæft fólk af báðum kynjum veljist til verka.  Þeir 15 einstaklingar sem gáfu kost á sér í prófkjörinu eru allir mjög frambærilegir og því var ljóst fyrirfram að hvernig sem þetta raðaðist þá myndi listinn verða glæsilegur og það varð raunin.

Prófkjörið var skemmtilegt, ég kynntist nýju fólki heyrði í íbúum bæjarins sem eru allmennt mjög sáttir við hvernig sveitafélaginu þeirra er stýrt.  Nú tekur enn skemmtilegri tími við þegar sjálf kosningabaráttan hefst.


mbl.is Haraldur sigraði í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið í dag í prófkjöri sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ

Frábærar tvær vikur í prófkjörsbaráttu er nú senn að ljúka.  Þetta hefur verið krefjandi en jafnframt skemmtilegur tími.  Ég hef kynnst þeim 15 frambjóðendum sem gefa kost á sér, allt saman frábært fólk sem ég veit að á eftir að vinna ver fyrir Mosfellinga alla.  Stemmingin í hópnum hefur verið mjög góð og er vísbending um hversu gaman verður hjá okkur í vor.

Ég hef átt fjöldann allan af samtölum við íbúa og það er það sem stendur uppúr.  Skemmtileg samtöl þar sem maður hefur bæði fengið að heyra það sem vel er gert og einnig hvar við getum bætt okkur.  Það er nauðsynlegt að heyra reglulega í kjósendum og vil ég hvetja lesendur mína til að vera ófeimna við að vera í sambandi og láta mig vita bæði þegar þeim líkar það sem ég geri en einnig ef það er eitthvað sem mætti betur fara.

Ég vil þakka öllu því frábæra fólki sem hefur staðið á bak við mig í þessu öllu saman, gaukað að mér góðum hugmyndum og talað máli mínu út um allan bæ.  Kærar þakkir fyrir

Nú vona ég að kosningaþátttakan verði góð og að við Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ komum sterkari en nokkru sinni fyrr út úr þessu prófkjöri.  Það er mikilvægt að félagsmenn mæti í Lágafellsskóla í dag (opið til kl 19) og kjósi sitt fólk.  Meðframbjóðendum mínum óska ég góðs gengis og sérstaklega vona ég að oddviti okkar Haraldur Sverrisson hljóti góða kosningu.

Kær kveðja frá frambjóðandanum

Bryndís Haralds í 2. sæti


Bæjarbúar hafi virka aðkomu að þróun og mótun bæjarins

Stjórnmál framtíðarinnar gera ráð fyrir því að íbúar hafi gott aðgengi að upplýsingum og eigi auðvelt með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við bæjaryfirvöld.  Stjórnmálamenn eiga að byrja á því að leita eftir skoðunum íbúa og í kjölfarið taka ákvörðun með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Krafan um aukið íbúalýðræði hefur farið vaxandi og nú er svo komið að við teljum þetta sjálfsagt, sem það er.  Á næstu árum skapast spennandi vettvangur til að þróa með hvaða hætti við virkjum íbúalýðræðið og hvernig við tryggjum þátttöku sem flestra íbúa í slíku samráði..

Frjó hugsun, framsækni og þrautseigjaÉg er uppalin í Mosfellsbæ, ég er gift Örnólfi Örnólfssyni og saman eigum við þrjú börn.  Við hjónin erum í eigin atvinnurekstri en áður starfaði ég hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  Ég hef í átta ár verið varabæjarfulltrúi og er nú formaður skipulags- og bygginganefndar.  Þau störf hafa verið mér lærdómsrík og ég tel mig hafa öðlast dýramæta reynslu og þekkingu sem ég veit að mun koma sér vel. Í störfum mínum bæði í atvinnulífi og félagsmálum hef ég lagt metnað minn í að vinna af heilindum, skapa jarðveg fyrir frjóar hugmyndir, vanda til þess sem ég geri og koma hlutum í verk.  Góðar hugmyndir eru dýrmætar og þeim verður að koma í framkvæmd.Ég hvet alla sjálfstæðismenn til að taka þátt í að velja öflugan lista fyrir komandi sveitastjórnakosningar. Ég heiti því að vinna af krafti og heiðarleika og óska eftir stuðningi þínum í 2. sætið í prófkjörinu á laugardaginn.Bryndís Haralds Frekari upplýsingar um mig og áherslur mínar má finna á www.bryndisharalds.is

Ráðdeild og skynsemi í rekstri bæjarins - greinin birtist í Morgunblaðinu 28.jan 2010

Rekstrarforsendur sveitarfélaga eru í dag gjörbreyttar frá því sem áður var. Með auknu atvinnuleysi og lækkun launa dragast útsvarstekjur verulega saman. Undanfarin ár hefur Mosfellsbær kappkostað að veita íbúum sínum góða þjónustu og svo mun verða áfram. Síðustu ár hafa verið nýtt til að greiða upp skuldir sem gerir sveitafélaginu auðveldara um vik að bregðast við miklum samdrætti í tekjum nú. Í stað þess að auka á skattbyrðar íbúa og hækka þjónustugöld hefur bærinn ákveðið að leggja fyrst og fremst áherslu á hagræðingu og forgangsröðun verkefna. Í því starfi er mikilvægt að standa vörð um grunnþjónustuna og þjónustu við börn og ungmenni. Jafnframt er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og varast skammtímalausnir sem kalla á enn meiri útgjöld síðar. Við verðum að leggja okkur fram við að hlúa að þjónustu við alla bæjarbúa af ráðdeild og skynsemi.

Samstaða og samvinna milli kjörinna fulltrúa
Á síðustu árum hafa landsmenn fengið sig fullsadda af pólitísku karpi kjörinna fulltrúa. Slíkt hefur þó ekki verið uppi á teninginum í Mosfellsbæ en þar hefur tekist að skapa þverpólitíska sátt um að leggja fram sameiginlega fjárahgsáætlun allra flokka fyrir 2009 og 2010. Slík samvinna kallar á breytt vinnubrögð og samstarfsvilja hjá öllum aðilum. Allir sem gefa sig í störf fyrir samfélagið eiga að hafa það að leiðarljósi að standa vörð um góða hluti og leitast við að gera enn betur. Stundum greinir okkur á um hvaða leiðir eru bestar, um það snúast stjórnmál, en það þýðir ekki að við getum ekki náð samkomulagi um farsælar lausnir fyrir heildina. Kjörnum fulltrúum ber að leita leiða til að vinna saman með hagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi og leggja við það til hliðar flokkspólitískan ágreining. Nýjir tímar kalla á ný vinnubrögð þar sem fólk á að koma saman og kappkosta að vinna að hagsmunum bæjarfélagsins sem samstillt heild.
Frekari upplýsingar um mig og áherslur mínar má finna á www.bryndisharalds.is

Bryndís Haraldsdóttir
Varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fer 6. feb nk.

Kynningamyndbönd komin á vefinn

Í tengslum við prófkjörið hef ég gert sutt myndbönd til að kynna mig og áherslur mínar:

Hver er Bryndís Haralds http://www.youtube.com/watch?v=EZRJUv5Qeeg

Grænn og fjölskylduvænn bær  http://www.youtube.com/watch?v=j-t9oh1X6aU

Miðbæ í Mosfellsbæ  http://www.youtube.com/watch?v=5sw9WlNNhZQ

Öflugt atvinnulíf http://www.youtube.com/watch?v=GCDqM0UL_CQ

Ég heiti því að vinna af trausti og heiðarleika http://www.youtube.com/watch?v=uEnlMWu717A

 


Íslensk birkifræ til sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ

Um helgina var fjör í prófkjörstússinu á laugardag fékk ég fjölda góðra stuðningsmanna til að aðstoða mig við að bera út skilaboð til flokksfélaga í Mosfellsbæ.  Fengu félagsmenn send frá mér íslensk birkifræ til að gróðursetja með hækkandi sól. 

Þau eru til marks um það samfélag sem ég vil rækta í Mosfellsbæ.  Samfélag sem einkennist af fallegri náttúru, fjölbreyttu mannlífi, fjölskylduvænu umhverfi og blómlegu atvinnulífi.  Með frjóa hugsun að leiðarljósi sköpum við bæjarfélag þar sem fólk og fyrirtæki finna fræjum sínum góðan jarðveg til að vaxa og dafna.

 


Prófkjör

Já nú ert allt á fullu í prófkjörum, spennandi úrslit helgarinnar liggja fyrir þar sem ljóst er að hvert einast atkvæði skiptir máli.  Úrslitin í Hafnafirði komu mér á óvart ég taldi víst að Rósa hefði 1 sætið þar en aðeins munaði 2 atkvæðum á henni og Valdimari.  Listinn lítur vel út hjá þeim og ég vonast svo sannarlega til að betri þátttaka í sjálfstæðisprófkjörinu en í samfylkingarprófkjörinu sýni að hlutfallið muni breytast í bæjarstjórn Hafnafjarðar eftir kosningar.

Samfylkingin háði prófkjör í Mosfellsbæ og þar var líka slagur um fyrsta sætið.  Jónas Sigurðsson hafði það en þó með örfáum atkvæðum.  Nú er bara að sjá hvernig endanlegi listinn þeirra verður (eru þeir ekki með fléttu ákvæði í Samfylkingunni ?)

En það er vika í prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ, spennan að magnast og ég vona innilega að við fáum betri kosningaþátttöku en verð hefur í prófkjörum síðustu vikna.  Þó mikil samstaða sé um bæjarstjórann okkar Harald Sverrisson og því engin oddvitaslagur hjá okkur.  Erum við þó nokkur sem sækjumst eftir því að vera í fremstu röð á listanum.  Fimmtán frábærir frambjóðendur gefa kost á sér, breiddin er mikil og samstaðan einnig.  Ég efast ekki um að þessi hópur á eftir að gera góða hluti fyrir flokkinn okkar hér í Mosfellsbæ.

Sjálf sækist ég eftir 2. sæti og þætti vænt um stuðning í það sæti.

 Kveðja

Bryndís Haralds


mbl.is Stefnir á annað sætið í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn

Foreldrahlutverkið er án ef mikilvægast hlutverk okkar sem því gegnum. Að vita muninn á réttu og röngu er ekki nóg heldur þurfum við að finna leiðir til að skapa hverjum einstaklingi tækifæri til að þroskast og verða gegn samfélagsþegn. Hverju barni fylgir 18 ára ábyrgð því foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs. Skólar og leikskólar hafa á undanförnum árum tekið að sér stærri hluta af uppeldi barna og lýsir það fyrst og fremst breyttum aðstæðum í samfélaginu. En þó skólar beri mikla ábyrgð á börnum þessa samfélags þá þýðir það ekki að ábyrgð okkar foreldra minnki.

Þeim mun mikilvægara er að samstarf þessara aðila sé gott. Foreldrar eiga að vera hluti af skólasamfélaginu. Með öflugu og góðu samstarfi skóla, heimilis og tómstundastarfs getum við byggt upp sterkari einstaklinga til framtíðar.

Það að foreldrar séu í virku og góðu samstarfi við kennara og aðra starfsmenn skólanna er ekki nægjanlegt. Einnig er mikilvægt að foreldrar þekkist sín á milli og geti rætt saman ef eitthvað kemur upp á. Samband bekkjakennara og foreldra þarf að vera gott þannig að kennari finni fyrir stuðningi hjá foreldrum og öfugt. Öflugt foreldrastarf hefur jafnframt mikið forvarnagildi og tryggir ákveðnari ramma utan um uppeldi barna og unglinga, til dæmis hvað varðar útivistartíma, tölvunotkun, sjónvarpsáhorf og fleira.

Foreldrar hafa mikil­vægu hlutverki að gegna í þróun skólastarfs og þurfa að eiga fulltrúa í stjórnun skólanna. Með nýjum menntalögum er búið að festa þetta í sessi en þar kemur fram að foreldrar skuli eiga að minnsta kosti einn fulltrúa í skólaráði hvers skóla.

Mikilvægt er að skólaráð taki virkan þátt í mótun og uppbyggingu skólastarfsins og að það hafi raunveruleg áhrif á stefnu og þróun skólans en sé ekki vettvangur til þess eins að gefa upplýsingar um það sem þegar hefur verið ákveðið.

Skólar og leikskólar landsins standa frammi fyrir mjög krefjandi verkefni. Á síðustu árum hefur gæði skólastarfs aukist svo um munar og því hefur fylgt aukið fjármagn. Nú er staðan sú að allir skólar á landinu þurfa að hagræða verulega en á sama tíma er gerð krafa um að þjónusta við börnin sé skert sem minnst. Við þessar aðstæður er mikilvægt sem aldrei fyrr að foreldrar séu með í ráðum og að fulltrúi foreldra taki virkan þátt í því að móta tillögur að hagræðingu. Foreldrar eru auðlind í skólastarfinu og nauðsynlegt er að nýta þá auðlind með skynsamlegum hætti.

Höfundur situr í stjórn Heimilis og skóla landssamtaka foreldra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. jan 2010


Miðbæ í Mosfellsbæ

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. jan 2010

Miðbæ í Mosfellsbæ Mosfellsbær er innrammaður fallegri náttúru og óvíða eru tækifæri til íþróttaiðkunar og útivistar meiri en þar.  Þau eru ekki mörg sveitafélögin sem geta státað að jafn góðu bæjarstæði og Mosfellsbær. En það er eitt sem vantar tilfinnanlega og það er miðbær með blómlegu mannlífi. Virk aðkoma bæjarbúaÍ Mosfellsbæ ríkir sérstakur bæjarbragur sem mikilvægt er að halda í þrátt fyrir að bæjarfélagið sé í örum vexti. Á undanförnum misserum hefur skipulags- og bygginganefnd bæjarins unnið að skipulagi á nýjum miðbæ með náttúrulegri og grænni ásýnd. Við þá vinnu var rík áhersla lögð á samstarf við bæjarbúa og að fá fram hverjar þarfir og væntingar þeirra til miðbæjarins eru.  Framkvæmd var skoðanakönnun og í kjölfarið settir upp rýnihópar til að fara yfir fyrstu tillögur að nýju miðbæjarskipulagi.  Niðurstaða þessara kannana var sú að 67% íbúa heimsækir miðbæinn á tveggja til fjögurra daga fresti.  Flestir Mosfellingar kaupa matvöru í miðbænum og almennt var fólk sammála um þörf fyrir fleiri sérverslanir.  Þátttakendur voru líka sammála um nauðsyn þess að ásýnd miðbæjarins sé náttúruleg og fjölskylduvæn.   Grænn og fjölskylduvænn miðbærKlöppunum í miðjum bænum er gert hátt undir höfði í nýja skipulaginu enda skipa þær stóran sess í hugum margra íbúa. Skrúðgarður sem er til staðar við Bjarkarholt mun verða hluti af miðbænum. Glæsilegri byggingu sem á að hýsa kirkju og menningarhús er ætlað að verða hornsteinn í nýjum miðbæ. Jafnframt mun framtíðar staðsetning framhaldsskólans í miðbænum verða til þess að glæða hann lífi.  Í störfum mínum í skipulags- og byggingarnefnd hef ég lagt mikla áherslu á unnið væri heilsteypt skipulag sem strax sé hægt að byrja að vinna eftir.  Nýja miðbæjarskipulagið hefur hlotið víðtæka umræðu og kynningu þar sem leitast var við að fara nýjar leiðir við að virkja íbúana í umræðunni og kalla eftir þeirra sjónarmiðum. Bryndís HaraldsdóttirFormaður skipulags- og bygginganefndar Mosfellsbæjar.

 


Tvöföldun Vesturlandsvegar í sjónmáli

Það var ánægjuleg frétt í Morgunblaðinu í morgun þar sem sagt var frá því að framkvæmdir við tvöföldun Vesturlandsvegar væri svo gott sem tilbúnar fyrir útboð af hálfu Vegagaerðarinnar. 

Að sögn samgönguráðherra gæti vinna við þessar framkvæmdir hafist í byrjun sumars, maí eða júní. Gangi það eftir lýkur þeim á næsta ári.

Um er að ræða tvöföldun frá hringtorginu við Þverholt að Þingvallarafleggjara. Hringtorgið við Varmá verður stækkað og gerðar hljóðmanir við Áslandshverfi. Mosfellingar hafa lengi barist fyrir því að umferðaröryggi og hljóðvist á þessum kafla yrði bætt og er nú loks útlit fyrir að af því verði.

Af www.mos.is
"Að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, G. Péturs Matthíassonar,  er um að ræða framkvæmdir sem kosta munu um 500 milljónir króna. Í þeim felst tvöföldun 1,5 km kafla frá Hafravatnsvegi að Þingvallavegamótum, tvöföldun hringtorgsins við Álafossveg, lenging undirganga fyrir göngu-, hjólreiða- og reiðfólk við Varmá, lenging stálundirgangna fyrir göngu- og hjólreiðafólk, breikkun brúar yfir Varmá, gerð göngubrúar yfir Varmá, gerð reið-, göngu- og hjólreiðastíga meðfram Vesturlandsvegi, ásamt hljóðmön milli vegar og byggðar við Áslandshverfi. Verkið verður unnið í samráði við Mosfellsbæ.

Undirbúningur útboðs er langt kominn, að sögn G. Péturs. Ef samgönguráðherra og fjármálaráðherra taka ákvörðun fljótlega um að ráðast í verkið verði hægt að bjóða það út í mars. Samningar við verktaka yrðu væntanlega gerðir í maí og hægt að hefja framkvæmdir fljótlega upp úr því. Verklok eru áætluð haustið 2011.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir þetta gleðifréttir fyrir Mosfellinga og aðra vegfarendur um Vesturlandsveg. “Það er ánægjulegt að það hafi verið hlustað á okkar rök í málinu sem við höfum verið dugleg að koma á framfæri. Við erum þakklát fyrir skilning Kristjáns Möller samgönguráðherra á málinu,” segir Haraldur."

Tvöföldun Vesturlandsvegar er mikilvægt hagsmuna mál fyrir Mosfellinga bæði eru það umferðaöryggisleg sjónarmið svo og er mikilvægt að bæta samgöngur en á háannatíma er Vesturlandsvegurinn ekki að anna umferðarmagninu og sitja íbúar löngum í bílum sínum að bíða færis með að komast inn á vegin í gegnum hringtorgin okkar.  Þessi áfangi er mikilvægt skref en í framtíðinni vil ég sjá að Vesturlandsvegur sé lagður í stokk í gegnum miðbæinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bryndís Haraldsdóttir

Höfundur

Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís er 32 ára áhugamanneskja um pólitík
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...vor_i_moso
  • Lágafellskirkja
  • ...smbl_953444
  • ...smbl_953443
  • ..._haraldsmbl

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 671

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband