Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Hátíðaræða 17. júní 2012 í Lágafellskirkju

Kæru kirkjugestir gLágafellskirkjaleðilegan þjóðhátíðardag.

Eða eins og börnin segja hæ hó og jibbý jei og jibbý jei það er komin 17.  júní.

Ég vona svo innilega að allir hér inni eigi margar góðar minningar frá þjóðhátíðardeginum.  Ég minnist þess sem barn að hafa hlakkað mikið til 17. júní, ekki vegna þess að ég hafði skilning á mikilvægi hans fyrir sögu okkar Íslendinga heldur fyrst og fremst hlakkaði ég til að eiga dag með fjölskyldunni fara í skrúðgöngu og kaupa blöðru og fána.  Ég minnist þess einnig að mamma mín lagði mikið uppúr því að ég væri vel tilhöfð og helst í nýjum fötum. 

Ég er nú ekki ýkja gömul en þó var það svo þá að það að fá ný föt gerðist ekki á hverjum degi en gjarnan var þjóðhátíðardagurinn notaður sem tækifæri til að kaupa falleg sumarföt.  Það var oft til þess að auk en frekar á spennuna að mega fara í nýju fötin í fyrsta skiptið á 17. júní.  Ég minnist þess að mæta uppstrípluð til langömmu og langafa sem bjuggu í Stórholtinu þaðan var gengið niður að Hlemm til að taka þátt í skrúðgöngu og hátíðarhöldum dagsins.  Aðalatriðið er það að ég á ljúfar og góðar æskuminningar frá þessum degi, minningar um samveru með fjölskyldu og vinum.

Þjóðhátíðardagurinn er kjörinn dagur til að skapa minningar  um góðan dag í góðra vina hópi.  Þegar öllu er á botninn hvoft eru það minningarnar um góðar stundir sem skipta öllu máli, samvera með fjölskyldu og vinum er svo miklu miklu  dýrmætara en nokkur veraldleg gæði.

Á sama tíma og við gleðjumst með börnum okkar og fögnum þessum mikilvæga degi, kannski með því að kaupa rándýrar gasblöðrur sem enda oft hátt uppi á himni og risastóra sleikjóa sem gera það að verkum að nýju 17.  júní fötin eru orðin klístruð strax í skrúðgöngunni.  Þá er ekki úr vegi að fræða þau um mikilvægi þjóðhátíðardagsins  17.  júní því jú bæði lýðveldið Ísland og Jón Sigurðsson eiga einmitt afmæli í dag.

Jón Sigurðsson  sem fékk grafskriftina að vera sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Maðurinn sem var í forsvari fyrir baráttu Íslands fyrir sjálfstæði frá konungsveldi Danmerkur, maðurinn sem notaði hvorki byssur né sverð heldur smíðaði hann vopn sín úr skjalasöfnum.  Það voru nefnilega söguleg og siðferðileg rök sem voru notuð sem vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði.  Það þurfti engar byssukúlur og enginn þurfti að láta lífið fyrir þessa baráttu. 

Yngri kynslóðum þessa lands er oft legið á hálsi fyrir að hafa takmarkaða þekkingu á sögu þjóðarinnar, ég tilheyri án efa þeirri kynslóð sem þyrfti að vita svo miklu meira um þá merkilegu baráttu sem  háð var fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.

Sjálfstæðinu sem okkur þykir svo sjálfsagt í dag. 

Ég naut þess fyrir 2 árum síðan að fara í ferðalag um hina fögru Vestfirði og heimsótti meðal annars Hrafnseyri við Arnarfjörð fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, þar sem nú er safn sem er til þess fallið að fræða okkur um hans merku ævi.  Ég hafði mjög gaman að því að fræðast um þennan merka mann og uppfræða börnin mín um þessa merku sögu, með misjafnlega góðum árangri. 

Það var svo stuttu síðar í einhverju fjölskyldu boðinu að unglings stúlka í fjölskyldunni sagði mér að hún hefði sko fengið 10 í prófinu um Jón Sigurðsson.  Ég hrósaði henni að sjálfsögðu fyrir það og hún gat sko talið upp að kauði væri fæddur þann 17. júní árið 1811, að Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Hann væri oft nefndur Jón forseti og væri karlinn á 500 kr. seðlinum.  Kona hans hét Ingibjörg og hann bjó lengst af í Danmörku.  Einnig sagði hún mér það sem ég þá ekki vissi að Háskóli Íslands hefði verið stofnaður á afmælis degi hans, eitthvað fleira gat hún líka talið upp um þennan merka mann Jón Sigurðsson.  En þegar ég spurði hana hvað væri svona merkilegt við þennan Jón Sigurðsson varð fátt um svör. 

Þetta sýnir okkur að það að láta börnin okkar lesa kennslubækur sem eru fullar af upplýsingum um þennan merka mann er ekki það sama og að skilja mikilvægi þeirrar baráttu sem þar er um fjallað.

Það er því ekki úr vegi að gera meira en að kaupa blöðrur og fána í dag, við foreldrar þyrftum einnig að minna á að í dag er afmæli lýðveldisins á sama hátt og við minnumst þess í desember að jólin snúast ekki bara um fjölskyldu boð og gjafir heldur erum við að fagna afmæli Jesús Krists.

En maður er manns gaman og hátíðarstundir eru til að njóta þeirra.

Ég vona að þið öll munuð njóta þjóðhátíðardagsins í okkar fallega sveitarfélagi.

Hverjum þykkir sinn fugl fagur segir máltakið en það er svo sannarlega engum blöðum um það að flétta að bærinn okkar er besta allra sveita.  Á þessu ári fagnar bærinn okkar 25 ára afmæli en þann 9. ágúst árið 1987 varð Mosfellshreppur sem oftast var kölluð Mosfellssveit að Mosfellsbæ. 

Ég minnist þess að vera ný flutt í þennan fallega bæ þegar þessum tímamótum var fagnað á Hlégarðstúninu.  Hreppurinn var orðin fullvaxta og komin með titilinn bær.  Ég var og er stoltur Mosfellingur en á æskuárunum fannst mér mikilvægt að hann væri kallaður þessu virðulega nafni Mosfellsbær, ættingjar sem bjuggu í höfuðborginni gerðu gjarnan grín að þessu og sögðu að þetta væri nú óttaleg sveit.  Ég varð sár og leiðrétti fólk iðulega ef það talaði óvart um bæinn minn sem Mosfellssveit.

 Nú á seinni árum finnst mér fátt jafn rómantískt og að hugsa til Mosfellssveitar og það að okkur skuli hafa tekist að skapa hér skemmtilegt og gott bæjarsamfélag í svona líka fallegri sveit.  Sveitarómantíkin sem hér blasir við okkur fellin okkar fögru, árnar og dalirnir, Leirvogurinn, hestar á beit,  í bland við svona ágætis kaupfélagsstemmingu.

Í ágúst árið 1972 birtist í Morgunblaðinu viðtal við  Hrólf Ingólfsson þáverandi sveitarstjóra og Jón Guðmundsson þáverandi oddvita Mosfellshrepps undir  fyrirsögninni  „Staldrað við í Mosfellshreppi – þar sem sveitin er að verða að bæ“.  Í viðtalinu er farið yfir þá miklu uppbyggingu sem á sér stað í Mosfellshreppi sem þá var 1000 manna byggð.  Í dag búa í Mosfellsbæ hátt í 10.000 manns þannig að breytingin hlýtur að vera mikil frá því sem varið árið 1972.   Umrætt viðtali lýkur á þessum orðum,  með undirfyrirsögninni ; Úr sveit í bæ „þannig er í stuttu máli Mosfellshreppurinn í dag um 90 árum eftir Innansveitarkróniku,  Augljóst er þó að sveitabæirnir svokölluðu eru á undanhaldi og að flestra dómi er nú aðeins tímaspursmál hvenær Mosfellssveitin hættir að vera sveit og verður að bæ.   En það gerðist formlega 15 árum eftir að þetta er ritað eða árið 1987.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég sé ein um að þykja svona gífurlega vænt um bæinn minn, þegar ég nýt þess að fara í útreiðatúr meðfram Leirvoginum eða skokka um Reykjalundarskóg nú eða ganga upp á Úlfarsfellið og horfa yfir bæinn sækir að mér sérstök tilfinning, tilfinning sem ég get ekki alveg útskýrt en er einhver samblanda af væntumþykju, hamingju og stolti. 

Á vordögum sannfærðist ég  um að ég er alls ekki ein um þessa tilfinningu.

Á opnu fundi í Listasalnum okkar var ungt fólk í bænum að fjalla um bæinn  og segja frá því hvernig var að alast hér upp. Það var auðheyrt á þeim öllum að þeim þótti mjög vænt um bæinn sinn.  Þau sögðu að hér hefði verið mjög gott að alast upp, skólar og önnur félagsstarfssemi til mikillar fyrirmyndar, þau nutu náttúrunnar og þeirra frábæru kosta sem Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.  Ef eitthvað var neikvætt í þeirra augum snéri það að almenningssamgöngum þar sem það væri ömurlegt að bjóða stelpu á stefnumót og þurfa að treysta á mömmu eða pabba sem bílstjóra í stað gulu limmosíunnar.

Sem betur ferð horfir þetta nú til betri vegar og unglingar í Mosfellsbæ get í haust farið í bíó og tekið strætó heim að sýningu lokinni.

Eftir stendur að í Mosfellsbæ er gott að búa og gott að ala upp börn.  Samfélagið hér er gott.  Fólk sem hér elst upp vill búa hér áfram og alla hér upp sín börn.  Það er gott að vera hluti af góðu samfélagi, segir ekki líka einhverstaðar að það þurfi heilt samfélag til að ala upp börn

Það er eitthvað notalegt við að þekkja til nágranna og  foreldra  í skólum barnanna heilsa gömlum bekkjarfélögum þegar maður fer með barnið sitt á leikskólann eða skýst inn í búð eftir mjólk. 

Ég lenti á spjalli við konu fyrir nokkrum árum sem var þá tiltölulega ný flutt í Mosfellsbæ, hún sagði við mig þið þessi innfluttu Mosfellingar eruð alltaf að heilsa fólki, ég fer inn í Bónus og hitti engan sem ég þekki en svo sé ég að allir eru að heilsast og spjalla um daginn og veginn við næstu manneskju.  Þetta er kannski ágætis áminning til okkar hinna um að bjóða nú alla velkomna í okkar góða samfélag, og halda í heiðri gildum bæjarins sem eru

Virðing, Jákvæðni, Framsækni og Umhyggja.

Við Mosfellingar erum stoltir af sögu okkar og menning, Nóbelsskáldinu okkar, ullariðnaðinum, náttúrunni og öllu því fallega sem sveitin eða bærinn hefur upp á að bjóða, líkt og við Íslendingar allir erum stolt af okkar fagra landi menningu okkar og sögu.

Ég hef sem móðir óbeit á kandísflosi og risastórum sleikjóum sem mér finnst vera eins og sýkla og óhreininda suga.  En ég ætla að láta það eftir börnunum mínum í dag.  Aðalatriðið snýr samt ekki að blöðrum eða kandísflosi, sól eða rigningu heldur því að skapa góðar minningar,  minningar um samveru og skemmtilega tíma. 

Ég hvet ykkur öll til hins sama njótum þjóðhátíðardagsins, brosum til náungans og gerum daginn í dag að minningu sem við munum orna okkur við síðar.

Að lokum ætla ég að flytja ykkur stutt ljóð eftir Jónas Hallgrímsson sem ber heitið

Íslands minni

Þið þekkið fold með blíðri brá

Og bláum tindi fjalla

Og svanahljómi, silungsá

Og sælu blómi valla

Og bröttum fossi, björtum sjá

Og breiðum jökulskalla –

Drjúpi hana blessun drottins á

Um daga heimsins alla.


Milljarða hagnaður og ofurlaun - greinilega alveg jafnmikið 2010

Nú berast fréttir af uppgjörum fyrirtækja fyrir síðasta ár, það verður spennandi að sjá hvort fyrirtæki landsins séu almennt rekin með hagnaði.  Það er auðvitað óskandi, en eitthvað óttast ég að lítil og meðalstór fyrirtæki landsins séu í mikilli baráttu við að vera réttu megin við núllið og líklegt að mörgum hafi ekki tekist það.

En bankarnir okkar eru að standa sig vel Arion banki skilaði 12,6 milljörðum í hagnað og Íslandsbanki tæpum 30 milljörðum, geri aðrir betur.  Það er auðvitað frábært að fyrirtæk geti skilað hagnaði en samt hljómar þetta eitthvað svo mikið 2007.  Árið 2010 einkenndist af fréttum af gjaldþrotum, matarbiðröðum og almennum fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja en á sama tíma er greinilega fínn business að reka banka því undir þessum kringum stæðum skila þeir tugum milljarða í hagnað.

En ekki nóg með það nú fáum við líka fréttir af launum bankastjóranna ekki amaleg laun það nokkrar miljónir á mánuði.  Þessar fréttir hljóma kunnuglega milljarða hagnaður og ofurlaun.  Á árunum 2007 voru ofurlaun bankastjóranna rökstudd með góðum árangri og mikill ábyrgð, við vitum öll hvernig það endaði.


Kjarasamningur kennara

Það verður seint deilt um mikilvægi þess að börnin okkar fái góða menntun. Forsenda þess eru góðir kennarar sem eiga að fá góð laun. En eru íslenskir grunnskólakennarar vel launaðir? Byrjunarlaun íslenskra kennara eru 84% (2007) af meðallaunum kennara inna OECD ríkjanna. Af þessum tölum er auðvelt að draga þá ályktun að laun kennara séu ekki í samræmi við mikilvægi starfsins. Þegar kostnaður við grunnskólana er greindur er langstærsti hluti kostnaðarins laun. Heildarkostnaður 2007 við grunnskólastigið á Íslandi var 3.7% af vergri landsframleiðslu sem var 54% hærra en meðaltal OECD landa. Við verjum mun hærra hlutfalli af vergri landsframleiðslu til skólamála en OECD löndin, en samt fá kennarar hér lægri laun. Hver er ástæða þessa ?

Kjarasamningur kennara er allt of flókinn og fer langt út fyrir hlutverk sitt. Þar eru langar klausur sem kveða á um hvað kennari á að kenna mikið, hversu langan undirbúningstíma hann hefur, hvað kennslumagnið minnki við lífaldur kennarar o.sfrv. Raunin er svo sú að skólastjóri hefur mjög takmarkað með það að gera hvernig kennarar verja tíma sínum, það er mikið til ákveðið í kjarasamningi. Að mínu mati eiga kjarasamningar að ákveða kaup og kjör en ekki ákveða með hvaða hætti eigi að reka viðkomandi stofnun eða fyrirtæki. Áður fyrr voru lög og reglugerðir um grunnskólann þannig úr garði gerð að lítið svigrúm var fyrir skóla að marka sér sérstöðu. Með grunnskólalögunum frá 2008 hefur þetta breyst og því ættu skólar nú að eiga auðveldara um vik með að móta sérstöðu og þróa sinn eigin skólabrag. En kjarasamningur kennara er hamlandi þegar kemur að þróun og nýsköpun í skólastarfi sökum þess hversu lítin sveigjanleika hann bíður upp á.

Ég skora á samningsaðila í kjaraviðræðum kennara að láta kjarasamning kennara snúast eingöngu um kaup og kjör þessarar mikilvægu stéttar.

Á árinu 2007 kostaði hver nemi á grunn- og miðstigi á Íslandi um 43% meira en meðalkostnaður pr nema innan OECD ríkjanna, Norðurlöndin raða sér reyndar á toppinn en Finnar sem við viljum nú oft miða okkur við þegar kemur að menntamálum reka greinilega mjög hagstætt skólakerfi en þar er kostnaður pr nemanda undir meðaltali OECD ríkjanna. Á sama tíma eru finnskir nemendur að skora mjög hátt í alþjóðlegum samanburði hvað kunnáttu varðar. Framlög til skólamála hafa aukist umtalsvert á síðustu árum og ég held ég geti líka fullyrt að gæði skólastarfsins hafa aukist. Það er samt óásættanlegt að okkar kerfi kosti mun meira en í löndunum sem við berum okkur saman við á sama tíma og kennarar hér hafa lægri laun en í þessum löndum. Við hljótum því að gera bætt kjör kennara án þess að skólakerfið þurfi að kosta okkur meira. Ég tel lausnina felast í kjarasamning kennara. Kjarasamningarnir þurfa að vera einfaldari og líkari því sem gengur og gerist hjá öðrum starfsstéttum

Greinin birtist á Visir.is 6. mars 2011


Þriðja fjárhagsáætlun eftir bankahrun.

Rekstrarforsendur Mosfellsbæjar eru gjörbreyttar eins og hjá öðrum sveitarfélögum, fyrirtækjum og heimilum.  Tekjur hafa dregist saman og aðkeyptar vörur og þjónusta hækkar í verði.

Í töflunni hér að neðan sést að útsvarstekjur bæjarfélagsins hafa í krónutölu lækkað um 20 milljónir eða um 70 milljónir þegar frá eru dregnar tekjur sem urðu til vegna sérstakra ráðstafanna ríkisstjórnarinnar um að opna á greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði.

 

2008

2009

2010

2011

Útsvarstekjur af launum og viðbótarlífeyrissparnaði í milljónum króna

2.700

2.659

2.695

2.680

 Fjárhagsáætlun ársins 2009 og 2010 tók mið af breyttum aðstæðum, farið var ofan í hverja krónu og hagrætt eins og kostur var; laun bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og æðstu embættismanna voru lækkuð.  Leitast var leiða við að hækka sem minnst þjónustugjöld og útsvar.  Þakka ber starfsfólki bæjarfélagsins, sem unnið hefur markvist að hagræðingu.  Þegar nú er unnin þriðja fjárhagsáætlunin undir þessum kringumstæðum er okkur vandi á höndum við teljum að hagrætt hafi verið eins og kostur er og erfitt að ná í mikið meiri fjármuni út úr slíkum aðgerðum. 240 milljóna gat sem stoppa þarf í Bæjarfélag  er ekkert öðruvísi en heimili eða fyrirtæki, gjöld þurfa að vera í samræmi við tekjur.  Verkefnið nú er gat upp á 240 milljónir kr.   Bæjarráð ákvað að nálgast verkefnið með eftirfarandi hætti:·         Hagræðing (1% af rekstri sem á að skila 40 mkr)·         Breyting á þjónustustigi (4% af rekstri sem skila á 160 mkr)·         Tekjur og gjaldskrár (1% af rekstri sem á að skila 40 mkr) Í kjölfarið var svo haldið íbúaþing þar sem íbúar voru beðnir um að koma með sparnaðartillögur og jafnframt að tjá sig um hvar ekki ætti að spara.  Tillögurnar voru margar og góðar en hægt er að sjá yfirlit yfir þær á heimasíðu bæjarins.  Allar þessar tillögur hafa verið yfirfarnar og margar þeirra teknar inn í fjárhagsáætlunina.  Margar tillögur komu fram um lækkun kostnaðar við yfirstjórn bæjarins.  Vert er að minna á að farið var strax í slíkar aðgerðir og við erum enn að.  Lækkuð voru laun hjá yfirstjórnendum um 7%, fyrir utan bæjarstjóra sem tekur á sig 17% lækkun.   Við hverju má búast Um þessar mundir er fjárhagsáætlun ársins 2011 til umræðu í bæjarstjórn. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um hækkun útsvars en það fer í 13,28%.  Til að taka dæmi um aðra þætti sem eru til umræðu:·         Samningar um fjárfestingar í íþróttamannvirkjum endurskoðaðir sem og styrktarsamningar·         Heimgreiðslur, frístundaávísanir og gjaldfrjáls 5 ára deild verða tekin til endurskoðunar·         Varmárlaug verði eingöngu skóla og kennslulaug ·         Almennar gjaldskrár hækki um 5-10%·         Álagningarstuðlar fasteignagjalda hækki í ljósi lækkun á fasteignamati.

Lagt var upp í fjárhagsáætlunarvinnuna með tvö megin markmið, annars vegar að vernda þá sem minnst mega sín og þurfa á þjónustu að halda, hins vegar að gæta þess að vanda dagsins í dag sé ekki velt yfir á þá sem taka munu við í framtíðinni, börnin okkar.

 Við teljum að það muni takast, ekki er um skerðingu á grunnþjónustu að ræða og tekjur munu ef áætlunin heldur duga fyrir rekstri og stærstum hluta vaxtagjalda.

 Bryndís Haralds og Elías Pétursson birtist í Varmá des 2010

Staðreyndir um laun bæjarstjóra

 Vegna greinar sem varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, Hanna Bjartmars, ritaði í Mosfelling nýlega undir yfirskriftinni "Laun bæjarstjóra" teljum við nauðsynlegt að koma neðangreindum upplýsingum á framfæri.  Ástæðan er sú að í greininni komi fram villandi upplýsingar sem felast í því að þeir sem ekki til málsins þekkja gætu skilið sem svo að laun bæjarstjóra hafi hækkað.  Hið rétta er að laun bæjarstjóra Mosfellsbæjar hafa lækkað alls um 17% frá því að  ráðningarsamningur var gerður haustið 2007.  Lækkunin greinist með eftirfarandi hætti: 1.    janúar 2009.  Lækkun um 7,56% skv. úrskurði Kjararáðs, en laun bæjarstjóra eru tengd við laun ráðuneytisstjóra1.    janúar 2010.  Lækkun um 3% skv. ósk bæjarstjóra1.    nóv. 2010.     Lækkun um 5% skv. nýjum ráðningarsamningi1.    nóv. 2010.     Lækkuð hlunnindi, 1% af launum skv. nýjum ráðningarsamningi Uppreiknað er hér um að ræða rúmlega 17% launalækkun á tímabilinu. Varðandi þá launaflokkatilfærslu sem getið er um í greininni, er hún tilkomin vegna þess að launflokkur bæjarstjóra er tengdur við launaflokk ráðuneytisstjóra og ákvarðaði Kjararáð þær breytingar.  Þessi tilfærsla leiddi ekki til hækkunar launa. Okkur þykir leitt að þurfa að leiðrétta greinar sem kjörnir fulltrúar skrifa, sérstaklega þar sem viðkomandi veit betur en teljum nauðsynlegt að Mosfellingar hafi réttar upplýsingar um mál sem þetta. Karl Tómasson, forseti bæjarstjórnarHerdís Sigurjónsdóttir, formaður bæjarráðsBryndís Haraldsdóttir, bæjarfulltrúi

Hafsteinn Pálsson, bæjarfulltrúi

birtist í Mosfellingi í des 2010


Hagsmunum Mosfellsbæjar gætt í hvívetna

Að undanförnu hefur verið til umræðu á vettvangi bæjarstjórnar uppgjör vegna skuldar Helgarfellsbyggingar við bæinn.  Umræða hefur skapast um  framsalsábyrgð bæjarins á viðskiptabréfum í tengslum við lóðauppgjör Helgafellsbygginga og Mosfellsbæjar  á árinu 2008. Helgafellslandið er í eigu einkaaðila og við ákvörðun um uppbyggingu þar gerði Mosfellsbær samning við eigendur (Helgafellsbyggingar) um hvernig skyldi staðið að uppbyggingunni.  Hverfið skyldi vera sjálfbært í þeim skilningi að kostnaður vegna uppbyggingar þar væri ekki greiddur af íbúum annarstaðar í bænum.  Því sáu landeigendur um gatnagerð ásamt því að greiða til bæjarins 700. þ.kr fyrir hverja selda íbúðaeiningu sem rynnu til uppbyggingar á skólamannvirkjum innan svæðisins.   

Lausafjárkreppa og skuldauppgjör

Í þeirri lausafjárkreppu sem skapaðist sumarið 2008 höfðu Helgafellsbyggingar ekki aðgang að lausafé til að gera upp við Mosfellsbæ og varð að samkomulagi að uppgjörið skyldi fara fram með útgáfu víxla af hálfu Helgafellsbygginga.  Allir flokkar í bæjarstjórn mátu það svo að hagsmunum bæjarins væri best borgið með þeim hætti þar sem ljóst var lítið sem ekkert hefði fengist upp í skuldina ef reynt hefði verið að innheimta hana með því að ganga að Helgafellsbyggingum. Þeirra viðskiptabanki þeirra var með fyrsta veðrétt á eignum fyrirtækisins en bankinn féllst hins vegar á að falla frá fyrsta veðrétti og þannig fékk Mosfellsbær trygg veð fyrir skuldinni. Þannig voru hagsmunir Mosfellsbæjar best tryggðir.  Niðurstaðan varð því að taka við viðskiptabréfum (víxlum sem síðar var breytt í skuldabréf) að upphæð 242 milljónir króna frá Helgafellsbyggingum. Í framhaldinu framseldi Mosfellsbær viðskiptabréfin og breytti í handbært fé til þess þurfti framsalsábyrgð sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða.  Gegn framsalsábyrgðinni fengust áðurgreind veð, en þau eru fjölbýlishúsalóðir í Helgafellshverfi með 52 íbúðum og einbýlishús við Brekkuland.

Trygg veð sem jafngilda skuldinni

Gjalddagi skuldabréfsins er í september næstkomandi. Fari svo að Helgafellsbyggingar greiði ekki á gjaldaga  né að þeirra viðskiptabanki geri ráðstafinar til að halda skuldinni í skilum renna viðkomandi lóðir og hús til bæjarins. Gatnagerðargjöld af íbúðalóðunum og fasteignamat af einbýlishúsinu eru jafngildi skuldarinnar þannig það má telja nær öruggt að Mosfellsbær fái skuld sína uppgerða hvernig sem fer.  

Álitamál – daglegur rekstur eða ekki

Nýlega komu fram fyrirspurnir um hvort Mosfellsbæ hefði verið heimilt að veita þessa framsalsábyrgð og ákvað bæjarráð að leita álits lögmannsstofunnar LEX á málinu.  Lögmannsstofan telur ekkert athugavert við að Mosfellsbær tæki við viðskiptabréfum – en telur það hins vegar ekki í samræmast sveitarstjórnarlögum að Mosfellsbær framseldi þau  og breytti í handbært fé, þar sem þeir eru þeirrar skoðunar að ekki sé um daglegan rekstur að ræða . Í sveitarstjórnalögum kemur fram að sveitarstjórnum er heimilt að taka við viðskiptabréfum og framselja þau þegar um daglegan rekstur er að ræða. Kemur álit Lex því á óvart þar sem bæjarstjórn áleit að samningurinn við Helgafellsbyggingar, sem var samstarfsverkefni um uppbyggingu í sveitarfélaginu, lóðasamningar, byggingarmál, gatnagerð og þar fram eftir götunum, flokkist undir daglegan rekstur. Löglærðir embættismenn sem undirbjuggu samninginn líta einnig svo á að um daglegan rekstur sé að ræða.  Allir sem að samningnum komu voru í góðri trú um að hann væri í fullu samræmi við lög og reglur enda tíðkast uppgjör sem þessi  hjá öðrum sveitarfélögum.  Undir það sjónarmið taka endurskoðendur sveitarfélagsins sem hafa lýst því yfir að framsalsábyrgðin samræmist að þeirra mati sveitarstjórnarlögum. Auk þess benda endurskoðendur sveitarfélagsins á að ábyrgðanna sé getið í ársreikningum bæjarins eins og lög gera ráð fyrir. 

Leita álits Sambands Íslenskra sveitarfélaga

Bæjarastjórn Mosfellsbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum að leita álits Sambands Íslenskra sveitarfélag á málinu því nauðsynlegt sé að úr því fáist skorið hvort framsal viðskiptabréfa með þessum hætti sé heimil almennt fyrir sveitarfélög í landinu. Við bæjarfulltrúar D og V lista tökum mál sem þessi alvarlega enda einarður ásetningur okkar að fylgja lögum í öllum okkar verkum og alltaf eru hagsmunir sveitarfélagsins í fyrirrúmi. 

Haraldur Sverrisson, Herdís Sigurjónsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Hafsteinn Pálsson og Karl Tómasson, bæjarfulltrúar birtist í Mosfellingi febrúar 2011 


Ný skipulagslög og mannvirkjalög

Um síðustu áramót tóku gildi ný skipulagslög og mannvirkjalög.  Slík lagasetning var án efa þörf enda búið að vinna að nýjum lögum í mörg ár.  Hafa ný skipulagslög verið lögð fyrir á nokkrum þingum en aldrei hlotið samþykki. 

Sem formaður skipulagsnefndar í Mosfellsbæ hef ég að sjálfsögðu kynnt mér lögin, við höfum í nefndinni farið yfir það sem helst snýr að okkur þó en bíðum við eftir kynningu frá ráðuneytinu.  En óvissu gætir um túlkun og framkvæmd lagana.  Má rekja þá óvissu til þess að engar reglugerðir eru tilbúnar né leiðbeiningar.  Verið er að þróa kynningarefni og vinna að reglugerðum en þeirri vinnu verður ekki lokið fyrr en eftir í það minnsta nokkra mánuði.

Ég hef skilning á því að ekki er hægt að semja reglugerðir á undan lagasetningu en kanski væri hægt að vinna það eitthvað samhliða svo ekki myndist óvissa í framhaldi af gildistöku laga.  Í það minnsta hefði verið hægt að samþykkja að lögin tækju gildi síðar svo tími gæfist til að smíða reglugerðir og leiðbeiningar innan ráðuneytana.

 


Er Skráargatið málið eða ekki ?

Skráargatið er sérstök merking á matvæli sem er við lýði í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Þessa merkingu geta framleiðendur sett á vörur sem þykja hollastar í hverjum vöruflokki. Matvælastofnun ætlar á næstu vikum að fjalla um möguleikann á því að taka upp Skráargatið, norræna hollustumerkingu fyrir matvæli.  Hafa þingmenn úr öllum flokkum tekið málið upp og vilja að það verði skoðað nánar.

Það er svo sannarlega þörf á að auðvelda okkur neytendum valið.  Sem þriggja barnamóður er mér umhugað um hvað ég og börnin mín láta ofaní okkur.  En í dagsins önn höfum við öll nóg að gera og þegar kemur að innkaupum tæki það mig of langan tíma að lesa allar innihaldslýsingar, geri ég þó nokkuð af því.  Hvernig á ég að muna hvaða E- efni eru notuð fyrir MSG, þægilegt þegar á vörunni stendur MSG- free.  Þá veit ég allavega að ég er laus við það efni sem fer illa í húð mína og barnsins.  Sykurinnihald og fituinnihald er oftast auðvelt að greina en hvað með öll þessi sætuefni, eru þau í lagi ?  Ótal spurningar geta vaknað þegar maður rýnir í innihaldslýsingar og þægilegt væri að hafa einhverja leiðsögn sem hægt er að treysta um hollustu.

Ég styð heilshugar að settar verði á slíkar merkingar og tel það mun jákvæðra en tilraunir ríkistjórnarinnar að stýra neyslu minni með sykurskatti. 

 


Systkynaafsláttur, daggæsla ungra barna.

Í dag hefur á fésbókinni verið mikil umræða um frétt sem www.pressan.is birti í morgun þar sem fyrir sögnin var Í Mosfellsbæ eru tvíburar ekki systkini.  Í þessari frétt er meira og minna rangt með farið og því haldið fram að bæjarráð Mosfellsbæjar hafi með því að hafna erindi umrædds tvíburapabba ákveðið að endurskilgrein líffræðilega skilgreiningu á tvíburum.

Staðgreindin er sú að systkinaafsláttur er veittur vegna daggæslu barna á stofnunum á vegum Mosfellsbæjar, þ.e.a.s. leikskólum og frístundaseli grunnskóla. Afslátturinn gildir óháð skólastigi, þ.e.a.s. foreldrar með börn í leikskóla og frístundaseli fá systkinaafslátt af gjaldi vegna eldra barnsins.  Séu foreldrar með barn í gæslu hjá dagforeldri og á leiksskóla er veittur systkynaafsláttur af eldra barninu sem þá er í vistun á leiksskóla bæjarins.  Í ljósi umrædds erindis voru allir bæjarráðsmenn sammála um það að skýra þyrfti reglurnar enn frekar svo ekki kæmi upp misskilningur sem þessi, en það er ljóst hver hugsunin var með reglunum á sínum tíma og hvernig embætismenn hafa svarað fyrirspurnum sem borist hafa varðandi systkynaafslátt.  Ég tjáði mig þó á þá leið að mér finndist ástæða til að skoða hvort sveitarfélagið hafi svigrúm til að koma sérstaklega til móts við fjölburaforeldra og veita þá líka systkynaafslát hjá dagforeldrum.  Það mál hefur nú verið sett í farveg og verið að skoða hvaða kostnaðarauka það hefði í för með sér.  

Hitt er svo að ef reiknaður er heildar gæslukostnaður frá 1-5 ára aldurs þá kostar það tvíburaforeldra jafn mikið og foreldra með tvö börn á sitthvoru árinu. 

Umrædd frétt 

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/tviburapabbi-i-barattu-vid-kerfid-i-mosfellsbae-eru-tviburar-ekki-systkini---okkur-er-mismunad

Mosfellingar eru ánægðir með bæinn sinn

Nú er skemmtilegri kosningabaráttu lokið og við tekur sjálf vinnan.  Ég er loksins komin af varamannabekknum og í bæjarstjórn og hlakka til að takast á við ný og spennandi verkefni. 

Kosningabarátta okkar Sjálfstæðismanna var skemmtileg, við lögðum mikla áherslu á að vera málefnaleg, jákvæð og bjartsýn.  Við höfum í góðu samstarfi við VG unnið vel á síðasta kjörtímabili og lögðum verk okkar í dóm kjósenda.  Við höfum skýra stefnuskrá sem fyrst og fremst gengur út á að viðhalda traustum fjárhag sveitarfélagsins.  Mosfellsbær er fjölskyldubær og hér hugum við vel að fjölskyldunni og veitum góða þjónustu. 

Fjórtán frábærir einstaklingar mynduðu lista okkar sjálfstæðismanna, en auk okkar listamannanna voru margir sem unnu með okkur og mynduðu þennan frábæra hóp sem uppskar vel í gær.Suma þekkti ég vel áður aðra lítið sem ekkert, en óhætt er að segja að á síðustu vikum hef ég eignast fjölda nýrra vina.  Allir unnu sem einn maður að því markmiði að ná góðri kosningu. Svo nú hefst hin raunverulega vinna það er að gera bæinn okkar enn betri og leiða bæinn okkar í gegnum næstu fjögur ár.

Niðurstöður kosninganna sýna að bæjarbúar treysta okkur frambjóðendum sjálfstæðisflokksins vel.  Fólk treystir okkur til að stýra bænum næstu fjögur árin.  Vinstri grænir halda sýnum manni enda nýtur hann traust og kjósendur eru ánægðir með árangur VG síðustu fjögur árin í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Samfylkingin tapar einum manni og framsókn dettur út.  Fréttnæmast er án efa að nýtt framboð íbúahreyfingarinnar náði inn manni, framboð sem varð til fyrir nokkrum vikum.  Ótrúlegur árangur á stuttum tíma.

Ég er spennt fyrir nýja starfinu mínu og heiti því að vinna af trausti og heiðarleika fyrir Mosfellinga alla.  Ég vona að okkur beri gæfa til að vinna öll vel saman, kjósendur eru löngu búnir að fá leið á sandkassaleik stjórnmálanna.  Í bæjarstjórn voru kosnir sjö frambærilegir einstaklingar sem allir vilja vinna af heilindum fyrir bæinn sinn. 

Ég hlakka til að vinna með öllu þessu góða fólki.


mbl.is Sjálfstæðismenn með meirihluta í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Bryndís Haraldsdóttir

Höfundur

Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís er 32 ára áhugamanneskja um pólitík
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...vor_i_moso
  • Lágafellskirkja
  • ...smbl_953444
  • ...smbl_953443
  • ..._haraldsmbl

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband